HÖNNUNARMARS 2017
FÍT stóð fyrir verðlaunasýningu í porti Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur, á HönnunarMars 23.-26. mars. Þessi árlegi FÍT viðburður hefur vaxið með hverju árinu og er óhætt að segja að það hafa aldrei jafn margir skoðað sýningarnar eða komið á opnunina og þetta árið, en samkvæmt upplýsingum frá Listasafninu heimsóttu um 3.500 manns safnið þessa daga og líklegt er að flestir hafi einnig gengið um sýningarnar í portinu.

Á sýningunni mátti sjá gróskuna í grafískri hönnun og myndskreytingum, þar sem það besta í grafískri hönnun og myndskreytingum ársins 2016 var sýnt.

Sex aðrar sýningar voru einnig í porti Hafnarhússins með FÍT.

VERÐLAUNAAFHENDING OG NÝIR HEIÐURSFÉLAGAR
Verðlaunaafhending FÍT keppninnar fór fram í Tjarnarbíó daginn fyrir opnun HönnunarMars. Þar voru þær Dóra Ísleifsdóttir og Halla Helgadóttir útnefndar heiðursfélagar FÍT (sjá nánar um þær undir heiðursfélagar).  

SÝNINGAR Í HAFNARHÚSINU 2017

FÍT keppnin 2017
Það besta í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi árið 2016. Keppnin var nú haldin í sautjánda skiptið. Dómnefnd valdi þau verk sem þóttu skara fram úr og verkin sem unnu til verðlauna og viðurkenninga voru sýnd á veglegri sýningu.

Mæna 8
Mæna, tímarit um hönnun á Íslandi, kom út í 8. skiptið. Tímaritið er gefið út árlega af nemendum á lokaári í grafískri hönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, í samstarfi við prentsmiðjuna Odda og Gunnar Eggerts.

Rafskinna
sýning á teikningum og upprunalegum prentmyndum Tryggva Magnússonar (1900-1960) sem var einn af stofnfélögum FÍT árið 1953. Prentmyndirnar birtust í Rafskinnu, auglýsinga-flettivél sem staðsett var í Austurstræti á sínum tíma. Tryggvi var aðalteiknari Rafskinnu 1935-45 en eftir hann liggur einnig fjöldi annarra verka.

Hannað/hafnað
Hörður Lárusson, Jón Ari Helgason og Ari Magg. Á sýningunni voru nokkrir grafískir hönnuðir fengnir til að grafa upp úr möppum sínum það sem tókst ekki að selja. Ari Magg ljósmyndaði.

Geimverur og teiknismiðja
Veggspjaldasamsýning 30 starfandi myndhöfunda/teiknara var haldin í þriðja skipti á HönnunarMars. Hver teiknari túlkaði geimverur á sinn hátt og líf og fjör var í teiknismiðju sem haldin var fyrir börn á laugardeginum. Þar gafst börnum kostur á að skapa sína eigin geimveru og hengja hana upp á veggi safnsins.

Feneyjarkarnival
Íris Halldórsdóttir sýndi myndaseríu sína.

Tilbrigði við kleinur
Vigdís Hlíf Sigurðarsdóttir sýndi textíl- og grafíkverk.

Sýningastjóri:  Þórdís Erla Zoega

MYNDIR FRÁ SÝNINGUNUM Í HAFNARHÚSINU

Ljósmyndari Kristín Edda Gylfadóttir